Home > Uncategorized > Sekt vegna slysasleppingar verður kærð

Sekt vegna slysasleppingar verður kærð

Í tilefni sektarákvörðunar MAST sem tilkynnt var um fyrr í dag vill félagið árétta eftirfarandi:

Arnarlax hyggst kæra ákvörðun MAST um stjórnvaldssekt á fyrirtækið . Í ákvörðun MAST er sérstaklega tiltekið að Arnarlax hafi greiðlega veitt MAST þær upplýsingar sem óskað var eftir og fyrirtækið hafi ekki haft neinn ávinning af meintu broti. Forsendur áfrýjunar af hálfu Arnarlax er að öllum viðbragðsferlum fyrirtækisins, sem og lögum og reglum, hafi verið fylgt til hins ítrasta. Bæði í aðdraganda óhappsins og í kjölfar þess.

Forsaga málsins er sú að í lok ágúst í fyrra fannst, við reglubundið eftirlit , gat á einni af kvíum fyrirtækisins við Haganes í Arnarfirði. Viðbragðsáætlun fyrirtækisins var strax virkjuð, gatinu lokað og var Matvælastofnun og Fiskistofu tilkynnt um málið samdægurs. Í samráði við Fiskistofu voru svo lögð út net sem að staðfesti að fiskur hafi sloppið úr kvínni.

Arnarlaxi þykir mjög miður að lax hafi sloppið úr kví fyrirtækisins en starfsfólk leggur hart að sér alla daga til að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst. Þrátt fyrir að Arnarlax telji að verklagsreglum hafi verið fylgt í umræddu tilviki þá mun fyrirtækið draga lærdóm af þessu óhappi.