Arnarlax tekur á móti tveimur nýjum fóðurprömmum
Arnarlax hefur fjárfest fyrir rúman milljarð í tveimur stærstu fóðurprömmum Íslandssögunnar þeim Steinborgu og Svanborgu. Hvor um sig taka 900 tonn af fóðri og eru þeir báðir hybrid með möguleika á landtengingu.
Við komu þessara pramma verða 7 fóðurprammar í skipaflota fyrirtækisins sem hafa geymslu fyrir 3.600 tonn af fóðri á hafi úti.
Við viljum bjóða alla velkomna að kíkja um borð í Svanborgu sunnudaginn 11. júní milli 12 og 14 þar sem prammanum verður gefið nafnið sitt.
Fóðurprammar okkar hafa oft verið nefndir í höfuðið á fólki af svæðinu og mun því annar pramminn fá nafnið Svanborg í höfuðið á henni Svanborgu Guðmundsdóttur. Þrír ættliðir hennar munu gefa prammanum nafnið sitt á sunnudaginn, sonur hennar, barnabarn og barnabarnabarn hennar sem allir eru starfsmenn Arnarlax í dag.
Við verðum einnig með opið hús tæpri viku síðar um borð í Steinborgu föstudaginn 16. Júní daginn fyrir þjóðhátíðardaginn næst komandi milli kl. 16 og 18.
Steinborg verður nefnd Steinborg því hann er steyptur prammi og vegur 2.500 tonn tómur.
Vonum að sem flestir geti fagnað þessu með okkur og hlökkum til að sjá ykkur.