Aflagjöld og Hafnargjöld
Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Vestfjarða þar sem Arnarlax var sýknað af kröfu Vesturbyggðar um greiðslu viðbótaraflagjalda á grundvelli nýrrar gjaldskrár sveitarfélagsins. Um prófmál var að ræða þar sem efasemdir hafa verið uppi um að lagaheimild væri fyrir innheimtu aflagjalds af eldislaxi. Sveitarfélagið Vesturbyggð benti m.a. annars sjálft á þann vafa í erindi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar á árinu 2019 og í umsögn til Alþingis árið 2021. Mikilvægt er hvoru tveggja fyrir fyrirtæki og einstaklinga að innheimta opinberra aðila á gjöldum hafi fullnægjandi lagastoð. Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða var skorið úr um þann vafa sem uppi var um lagastoð aflagjalds og staðfest að ekki er heimild í lögum til innheimtu aflagjalds vegna eldisfisks.
Arnarlax hefur ávallt greitt fyrir þá þjónustu sem fyrirtækið hefur fengið frá sveitarfélaginu og mun að sjálfsögðu gera það áfram, þ.m.t. vegna notkunar fyrirtækisins á höfn Vesturbyggðar. Hefur Arnarlax greitt samtals 296 milljónum króna í hafnargjöld til hafnarsjóðs Vesturbyggðar á síðustu þremur árum. Í því samhengi er bent á að hagnaður hafnarsjóðs Vesturbyggðar síðastliðin 3 ár nemur tæpum 357 milljónum króna.
Í öðrum sveitarfélögum þar sem eldisfiski er landað hafa náðst samningar milli fyrirtækjanna og sveitarfélaganna. Er það von Arnarlax að sú verði einnig raunin i tilfelli Vesturbyggðar.